Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Undirbúningstímabilið er hafið af krafti

19. ágúst 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Þýskaland – dagur 1

Ferð Akureyrar Handboltafélags til Þýskalands hófst klukkan 7:45 á fimmtudagsmorgni þegar lest bílaleigubíla brunaði frá Íþróttahöllinni á Akureyri áleiðis til Keflavíkur. Hádegisverður var á Subway í Ártúnsbrekkunni og þótt ótrúlegt megi virðast tókst flestum að finna staðinn.
Síðasta stopp var hjá Loga Geirssyni þar sem bætt var úr skómálum nokkurra leikmanna, enda margar sagnir um unga menn sem halda út í heim með nesti og nýja skó.

Lent var í Berlín eftir vel rúmlega þriggja tíma flug en þá var klukkan að verða 22:00 að staðartíma, en klukkan hér er tveim tímum á undan klukkunni heima.
Á vellinum beið rúta frá mótshöldurum hér í Ilsenburg og þar með hófst 4 tíma rútuferð á áfangastað. Atli Hilmarsson lýsti fyrir hópnum aðstæðum, við værum í ægifögru og gróðursælu umhverfi. Erfitt var að efast um það enda komið kolniðamyrkur þannig að menn sáu varla handa sinna skil.

Eftir klukkutíma akstur var stoppað til að seðja sárasta hungrið en matarúrvalið hugnaðist mönnum ekki þannig að ákveðið var að keyra í annan klukkutíma og snæða þar á BurgerKing. Þetta voru mikil tímamót í lífi Sveinbjörns sem í fyrsta sinn steig fæti inn á Burger King og hefði frekar vilja Mc Donalds.


Svangir ferðalangar panta mat á Burger King

Eftir velheppnað hamborgaraát var haldið áfram í myrkrinu en af og til varð þó allt glansbjart og héldu menn í fyrstu að heimamenn væru með flugeldasýningu í tilefni af komu Akureyrarliðsins. Það var þó ekki raunin heldur logaði himininn af eldingum og skömmu síðar brast á úrhellisrigning og hélt ljósagangurinn og rigningin alla leið á áfangastað. Þegar þangað kom var ekki erfitt að sofna eftir strembinn dag.

Föstudagurinn hófst með glæsilegum morgunverði, hótelið er glæsilegt og í frábæru umhverfi, eiginlega út í sveit en ljóst að Atli laug engu um magnað umhverfið. Tekin var létt æfing í Ilsenburgarhöllinni þar sem mótið mun fara fram.


Atli og Sævar fylgjast með upphitun æfingarinnar. Í baksýn er auglýsing um mótið

Að venju var hitað upp með fótbolta á milli yngri og eldri. Eftir mikla baráttu tryggði Sævar Messi Árnason eldra liðinu 3-2 sigur með slíku glæsimarki að Sævar hefur ekki haft undan að svara tilboðum frá þýskum úrvalsdeildarliðum.


Æfingin í fullum gangi


Nettó er til hér í Ilsenburg, spurning um nýjan stuðningsaðila?

Seinna um daginn var ekið til bæjarins Wolfsburg þar sem leikinn var æfingaleikur gegn MTV Vorsfelde.
Mikill áhugi var hjá bæjarbúum á leiknum og fjölmargir áhorfendur þó einungis væri um æfingaleik að ræða.


Lið heimamanna í MTV Vorsfelde


Lið Akureyrar Handboltafélags

Akureyri byrjaði af krafti og náði fimm marka forystu 7 – 2 en heimamenn náðu að vinna sig inn í leikinn og í hálfleik var forysta Akureyrar einungis eitt mark, 12 – 11.


Seinni hálfleikur hafinn

MTV Vorsfelde jafnaði strax í upphafi seinni hálfleiks og var jafnt á flestum tölum í seinni hálfleik þó að heimamenn hafi heldur haft frumkvæðið. Leiknum lauk með jafntefli 29 – 29 en Sveinbjörn varði síðasta skot leiksins eftir að heimamenn höfðu beitt gömlu trikki sem Stefán Árnason beitti hér á árum áður oft hjá liðum sem hann þjálfaði. Þá kemur arfaslök sending sóknarliðsins sem virðist stefna útaf í grend við miðlínu þannig að allir varnarmenn hlaupa fram í sókn, en þá er markvörður hins liðsins skyndilega mættur og hirðir upp sendinguna og sendir á samherja sem lúrir einn og yfirgefinn við vítateiginn. En eins og áður segir þá varði Sveinbjörn skotið og jafnteflið niðurstaðan.

Eins og þjálfararnir sögðu eftir leikinn var töluverður haustbragur á mönnum enda var þetta eiginlega fyrsta spilæfing liðsins. Ekki er hægt að tala um að þetta hafi verið sterkasta liðið sem stillt var upp. Bjarni Fritzson varð eftir heima vegna meiðsla, Daníel Einarsson leikur ekki með í ferðinni þar sem hann er að jafna sig eftir aðgerð, Ásgeir Jónsson, sem kom frá Aftureldingu hvíldi í þessum leik og það gerði Heimir Árnason eiginlega líka.
Mörk Akureyrar skoruðu: Geir Guðmundsson 9, Oddur Gretarsson 7, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Heiðar Þór Aðalsteinsson, Hörður Fannar Sigþórsson og Jóhann Gunnarsson 2 hver og Ásgeir Jóhann Kristinsson og Bergvin Gíslason 1 mark hvor.
Sveinbjörn varði 18 skot og Stefán Guðnason 1.

Eftir leikinn buðu heimamenn upp á dýrindis máltíð, grillað kjöt og pylsur sem var gerð góð skil.


Tekið hraustlega til matar síns


Þessar stúlkur höfu mikinn áhuga á að kaupa Geir Guðmundsson en ekki náðust samningar framkvæmdastjóranna um verð og Geir sýndi takmarkaðan áhuga

Að því loknu var ekið til baka til Ilsenburg og haldið í háttinn enda tveir alvöruleikir á dagskrá morgundagsins.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson