Fréttir  -  Leikir tímabilsins  -  Leikmenn  -  Stjórn  -  Saga og tölfræði  -  Höllin  -  Lagið  -  Myndir  -  Myndbönd  -  Tenglar
  - Úrvalsdeild karla - Senda skilaboð - Vefur KA - Vefur Þór - Fréttaleit
Meistarafl. karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan-Akureyri 28-23
Þri. 4. apr. 2017
Olís deild karla
ÍBV-Akureyri 22-22
Mið. 29. mar. 2017
Olís deild karla
deildin staðan

Ungmennalið karla
Næstu leikir
Nýjustu úrslit
Stjarnan U-Akureyri U 35-30
Fös. 7. apr. 2017
1. deild karla
Akureyri U-KR 34-30
Fös. 31. mar. 2017
1. deild karla
deildin staðan




    Fréttir                       Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar! 

Flottur leikur gegn Svíunum

20. ágúst 2011 - Akureyri handboltafélag skrifar

Þýskaland - dagur 2

Laugardagurinn tók á móti okkur með glansandi sól og 30 stiga hita. Morgunmatur klukkan 8:00 og fljótlega var haldið í íþróttahöll bæjarins, Harzlandhöllina þar sem mótið fer fram.
Mótið heitir Internationale Klaus-Miesner-Gedenkturnier og er nú haldið í 22. sinn en mótið er haldið í minningu Klaus Miesner sem var mjög virtur þjálfari hjá Magdeburg.


BergHotel er glæsilegt og ekki spillir sólskinið

Akureyri spilaði opnunarleik mótsins gegn sænska liðinu Ystad IF og hófst leikurinn klukkan 11:00 að staðartíma að aflokinni myndatöku.


Akureyrarliðið sem spilar á mótinu

Þetta varð hörkuleikur jafnt á næstum öllum tölum í fyrri hálfleik og Akureyri ávalt skrefinu á undan. Liðið spilaði glimrandi fínan bolta bæði í sókn og vörn og Sveinbjörn traustur í markinu. Svíarnir náðu reyndar að skora síðasta mark fyrri hálfleiks og leiddu 15-16 í hálfleik.


Inga Dís hefur nóg að gera við að nudda leikmenn


Frá leiknum við Ystad IF

Sami barningur hélt áfram í seinni hálfleik en nú voru það Svíarnir sem höfðu frumkvæðið. Þeir náðu að breyta stöðunni úr 20-21 í 20-24 og síðan í 21-25 og útlitið ekki gott. En þá sýndu okkar menn úr hverju þeir eru gerðir með frábærum kafla þar sem Sveinbjörn skellti í lás, varði víti og skyndilega var Akureyri búið að jafna leikinn í 25-25.

Lokakaflinn var æsispennandi en að lokum var það Heimir Örn sem fiskaði vítakast sem Oddur skoraði úr og jafnaði í 27-27 sem urðu lokatölur leiksins.

Í heildina var þetta frábær leikur og mátti engu muna að sigurinn félli okkur í skaut í ljósi þess að þrjú vítaköst fóru forgörðum.


Leikhlé og hlýtt á boðskapinn

Mörk Akureyrar: Oddur Gretarsson 13 (4 víti), Guðmundur Hólmar Helgason 4, Heimir Örn Árnason 3, Hörður Fannar Sigþórsson 3, Bergvin Gíslason og Geir Guðmundsson 2 mörk hvor.
Sveinbjörn Pétursson varði 17 skot og þar af eitt vítakast.

Lið Akureyrar fékk ekki langa hvíld því næsti leikur hófst klukkan 15:00 og var gegn þýska Bundesliguliðinu Melsungen. Snemma var ljóst að fyrri leikurinn sat aðeins í okkar strákum á meðan Melsungen liðið kom óþreytt í sinn fyrsta leik. Þar að auki virtust okkar strákar bera óhóflega mikla virðingu fyrir þýska liðinu og sama mátti segja um dómara leiksins sem dæmdu klárlega ekki eins á Jón og séra Jón.

Melsungen refsaði grimmilega fyrir öll mistök, komst í 5-0 og ekki batnaði útlitið þegar Guðmundur Hólmar var tekinn og skellt harkalega í gólfið þannig að sauma þurfti nokkur spor, eða réttara sagt skella nokkrum heftum í olnbogann á honum og hann þar með úr leik. Hans stöðu tók Ásgeir Jóhann Kristinsson og átti eftir að láta að sér kveða. Í hálfleik var sex marka munur, 12-18 fyrir Melsungen.

Seinni hálfleikur hófst á sama hátt og sá fyrri, Melsungen skoraði fyrstu sex mörkin, þar af fjögur úr vítaköstum sem sum hver voru reyndar af ódýrari gerðinni.


Frá leiknum gegn Meslungen

Þessi munur hélst síðan til leiksloka og urðu lokatölur óþarflega stórt tap, 28-41. Það sást greinilega að mikil orka hafði farið í fyrri leikinn og ekki bætti úr skák að hitastigið í höllinni er býsna hátt.
Oddur fór sem fyrr á kostum í sóknarleiknum og var langmarkahæstur með 11 mörk (3 úr vítum), Geir Guðmundsson 6, Ásgeir Jóhann Kristinsson 4, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Jóhann Gunnarsson 2 og Bergvin Gíslason, Heiðar Þór Aðalsteinsson og Guðlaugur Arnarsson 1 mark hver.
Í markinu varði Sveinbjörn 11 skot og Stefán Guðnason 2, þar af eitt vítakast.

Melsungen vann síðan Svíana í Ystad IF með níu mörkum sem þýðir að Akureyri spilar við HC Kriens-Luzern frá Sviss um 5. sætið á sunnudag, Ystad spilar við Magdeburg um 3. sæti og Lübbecke og Melsungen spila um gullið.
Eftir laugardaginn er Oddur Gretarsson trúlega markahæsti maður mótsins með 24 mörk og verður fróðlegt að sjá stöðuna í mótslok en veitt eru verðlaun fyrir markakóng mótsins.

Leikur Akureyrar og HC Kriens-Luzern um 5. sætið hefst klukkan 11:00 (9:00 að íslenskum tíma). Því miður höfum við ekki netsamband í Íþróttahöllinni og getum því ekki lýst leiknum beint. Klukkan 16:45 lýkur mótinu með verðlaunaafhendingu og þar á eftir sameiginlegum kvöldverði liðanna.

Öll framkvæmd mótsins og aðstæður eru til fyrirmyndar. Mikill fjöldi áhorfenda er á leikjunum og láta þeir vel í sér heyra. Í leiknum gegn Melsungen var treyja Guðlaugs Arnarssonar rifin í tætlur og brutust út mikil fagnaðarlæti þegar hann fór úr lörfunum og massaður efri búkurinn blasti við áhorfendum.

Reyndar er gríðarlegur áhugi á öllu sem tengist Akureyrir Handboltafélagi og eru flestir búnir að gefa allar sínar nælur og gefa eða lofa utanaf sér hverskonar Akureyrarbolum.

Fyrir þá sem ekki vita þá fer mótið fram í gamla Austur-Þýskalandi, rétt hjá Magdeburg og ljóst að handbolti er gríðarlega vinsæll og fólk hér mjög meðvitað um ágæti íslensks handbolta. Fleiri en einn og fleiri en tveir sögðu okkur að Alfreð Gíslason væri ennþá hetjan í Magdeburg og þeir söknuðu sárlega leikmanna eins og Arnórs Atlasonar og Sigfúsar Sigurðssonar svo einhverjir væru nefndir.

En nú er ekki um annað að ræða en drífa sig í háttinn og koma ferskir í lokaleikinn en þess má geta að þjálfari Svisslendinganna er enginn annar en Torben Wither fyrrum landsliðsþjálfari Dana.
Fletta milli frétta Til baka    Senda á Facebook
Umsjón og hönnun: Stefán Jóhannsson og Ágúst Stefánsson