Úrslitakeppnin er hápunktur leiktímabilsins
| | 17. apríl 2010 - Akureyri handboltafélag skrifarÚrslitakeppnin 2002: 8 liða úrslitin viðbótVið höldum áfram að rifja upp úrslitakeppnina frá því árið 2002. Eins og komið hefur fram komust bæði Akureyrarliðin KA og Þór í 8 liða úrslitin. Í fyrsta hlutanum áttum við ekki umfjöllun um viðureignir Þór og Vals í 8 liða úrslitunum en nú höfum við komist yfir umfjöllun Morgunblaðsins um leiki liðanna og fylgja þær hér á eftir.Valur – Þór (17. apríl 2002)Sigmundur Ó. Steinarsson blaðamaður Morgunblaðsins skrifar HINIR ungu leikmenn Vals fögnuðu sigri á Þórsurum í fyrstu rimmu þeirra í 8-liða úrslitum, á Hlíðarenda, 29:23. Það var sterkur varnarleikur Valsmanna, sem byggðist upp á að stöðva Pál Viðar Gíslason, og góð markvarsla Roland Eredze, sem skóp sigur Valsmanna – varði alls sautján skot í leiknum og lokaði markinu á mjög þýðingarmiklum tíma í fyrri hálfleik, þegar hann varði til dæmis tvö vítaköst í röð. Þórsarar náðu ekki að skora í átta mínútur.
Það var fljótlega ljóst að Valsmenn ætluðu ekkert að gefa eftir í varnarleik sínum – „Turnarnir fjórir“ á miðjunni hjá þeim, Einar Gunnarsson, Geir Sveinsson, Sigfús Sigurðsson og Markús Máni Michaelsson, voru traustir fyrir framan Roland Eredze, sem stóð vaktina í markinu. Það er ekki hægt að segja að hann hafi sofnað á verðinum – varði hvað eftir annað mjög vel, alls ellefu skot í fyrri hálfleiknum og þar af tvö vítaköst. Á sama tíma náðu markverðir Þórs sér ekki á strik, vörðu aðeins fimm skot. Hafþór Einarsson eitt, en yfirgaf völlinn til að hleypa Birni Björnssyni að, en hann varði fjögur skot. Valsmenn lokuðu á Pál Viðar Gíslason og þar með lömuðu þeir sóknaraðgerðir Akureyrarliðsins. Staðan var 9:6 eftir 17 mín., síðan 11:6 og Þórsarar ekki búnir að skora mark í átta mínútur, er þeir skoruðu 11:7. Staðan í leikhléi 14:8. Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, þjálfari Þórs, breytti varnaraðgerðum sinna manna í byrjun seinni hálfleiks, er hann lét Pál Viðar fara framar á völlinn. Það gekk ekki og heldur ekki þegar tveir leikmenn voru settir fram á móti Snorra Steini Guðjónssyni og Bjarka Sigurðssyni. Steinni hálfleikurinn leystist upp í leikleysu á köflum og vakti það athygli er Valsmenn misstu tvo sterkustu varnarmenn sína útaf í tvær mín. á sama tíma, Geir Sveinsson og Sigfús Sigurðsson, að Þórsarar náðu ekki að nýta sér það, heldur bættu Valsmenn við tveimur mörkum, 23:14, og gerðu út um leikinn. Sigur Valsmanna byggðist á góðri markvörslu Eredze, sterkum varnarleik – sérstaklega í fyrri hálfleik og jöfnum sóknarleik, þar sem fjórir leikmenn skoruðu fimm mörk hver – Snorri Steinn, Bjarki, Markús Máni og Sigfús. Ungu leikmennirnir hjá Val eru hugmyndaríkir og gera marga fallega hluti. Þórsliðið er að mestu byggt upp á einum leikmanni – Páli Viðari Gíslasyni leikstjórnanda, sem er eini leikmaðurinn sem getur ógnað verulega með langskotum. Hann skoraði ellefu mörk í leiknum. Valsmenn náðu að hrekja hann úr stöðu leikstjórnanda um tíma í fyrri hálfleik – út á væng og tók þá Aigars Lazdins við hlutverki leikstjórnandans. Ekki er hægt að segja að Þórsliðið hafi náð sér á strik sem liðsheild, en það sýndi, að það á að geta leikið betur á góðum degi. Ég hef trú á því að Þórsarar komi aftur að Hlíðarenda á sunnudaginn, mæta Valsmönnum í oddaleik. Þá getur allt gerst. Gangur leiksins: 0:1, 2:1, 5:4, 7:4, 9:6, 11:6, 11:7, 14:8. 14:9, 16:9, 18:11, 20:14, 23:14, 25:17, 27:21, 28:23, 29:23.
Mörk Vals: Markús Máni Michaelsson 5/1, Snorri Steinn Guðjónsson 5/1, Sigfús Sigurðsson 5, Bjarki Sigurðsson 5, Freyr Brynjarsson 4, Ásbjörn Stefánsson 3, Einar Gunnarsson 2. Utan vallar: 4 mín.
Mörk Þórs: Páll Viðar Gíslason 11/4, Þorvaldur Þorvaldsson 2, Þorvaldur Sigurðsson 2, Árni Sigtryggsson 2, Aigars Lazdins 2, Sigurpáll Árni Aðalsteinsson 2, Goran Gusic 2, Bjarni G. Bjarnason 1. Utan vallar: 4 mín. Þannig vörðu þeir: Roland Eradze, Val 17/2 (2). – 7 langskot, 1 af línu, 2 vítaköst, 2 (1) hraðaupphlaup, 5 (1) úr horni. Hafþór Einarsson, Þór 1. – 1 langskot. Björn Björnsson, Þór 10/1 (5) – 4 (3) langskot, 1 vítakast, 1 hraðaupphlaup, 2 (2) úr horni, 2 eftir gegnumbrot.Þór – Valur (19. apríl 2002)Stefán Þór Sæmundsson blaðamaður Morgunblaðsins skrifar VALSMENN eru komnir í undanúrslitin eftir sigur á Þór á Akureyri, 32:28. Segja má að Þór hafi fallið úr keppni með sæmd en þetta var í fyrsta skipti sem liðið tók þátt í úrslitakeppni og mál manna að Þórsarar hafi komið mjög á óvart með sterkum og ágengum sóknarleik í vetur. Í þessum öðrum leik liðanna kom þó í ljós er líða tók á leikinn að Valsmenn höfðu reynsluna, hefðina og breiddina fram yfir nýliðana. Þeir mæta Aftureldingu í undanúrslitum. Við vorum í vandræðum í fyrri hálfleik og létum Lazdins og Árna Sigtryggsson komast upp með of margt en við náðum að skrúfa fyrir lekann í seinni hálfleik og höfðum líka neistann og viljann til að komast áfram. Þetta var erfitt en við erum á réttri leið,“ sagði Geir Sveinsson, fyrirliði Vals. Fyrri hálfleikur var jafn og var á margan hátt sem bergmál af leikjum liðanna í deildinni í vetur. Styrkur Þórs fólst í góðri markvörslu Hafþórs Einarssonar og stjörnuleik Aigars Lazdins og hins unga Árna Sigtryggssonar í sókninni. Staðan í leikhléi var 13:13 og skoruðu þeir Lazdins og Árni þá 5 mörk hvor. Dreifingin var meiri hjá Val en greinilegt að Snorri Steinn Guðjónsson var heitur og átti hann eftir að bæta verulega við þau 4 mörk sem hann skoraði í fyrri hálfleik. Bæði liðin léku flata vörn í fyrri hálfleik en Valsmenn skiptu yfir í 5-1 í seinni háfleik og tóku síðan Lazdins úr umferð, auk þess sem vörnin varð hreyfanlegri og meiri ákefð í öllum aðgerðum. Þórsarar réðu illa við þetta og eftir að hafa haldið jöfnu fram í stöðuna 16:16 drógust þeir aftur úr. Forskot Vals var frá tveimur og upp í fimm mörk allt til leiksloka en þó skapaðist nokkur spenna í stöðunni 27:29 þegar ríflega þrjár mínútur voru eftir. Þórsarar fóru hins vegar illa að ráði sínu á lokakaflanum. Sigurpáll Árni Aðalsteinsson, þjálfari Þórs, viðurkenndi að liðið hefði ekki ráðið við það þegar Lazdins var tekinn úr umferð. Hann var vonsvikinn yfir því að Þórsliðið skyldi ekki hafa sýnt meira í úrslitakeppninni en hvað veturinn í heild snerti kvaðst hann bærilega sáttur. Vörn Þórs bilaði líka í seinni hálfleik og markvarslan hrundi. Á sama tíma léku liprir sóknarmenn Vals við hvurn sinn fingur. Snorri Steinn skoraði 10 mörk í leiknum, Markús Máni hrökk í gang og skoraði 7 og Sigfús Sigurðsson var afar traustur á línunni og skoraði 6 mörk. Þórsarar höfðu ekki næga breidd til að mæta því þegar Lazdins var klipptur út og Valsvörnin lokaði vel á Árna. Lazdins endaði í 8 mörkum og Árni 6 en Páll Gíslason, sem skoraði ekki mark í fyrri hálfleik, tók rispu og skoraði 5 í þeim síðari. Þorvaldur Sigurðsson átti líka bærilegan leik.
Gangur leiksins: 1:0, 1:2, 4:6, 7:6, 11:13, 13:13, 16:16, 18:21, 22:27, 27:29, 28:32.
Mörk Þórs: Aigars Lazdins 8/4, Árni Sigtryggsson 6, Þorvaldur Sigurðsson 5, Páll V. Gíslason 5/1, Þorvaldur Þorvaldsson 2, Goran Gusic 1, Hörður Sigþórsson 1. Utan vallar: 8 mínútur.
Mörk Vals: Snorri Steinn Guðjónsson 10/2, Markús Mikaelsson 7/1, Sigfús Sigurðsson 6, Bjarki Sigurðsson 4/2, Freyr Brynjarsson 3, Ásbjörn Stefánsson 2. Utan vallar: 10 mínútur. Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson. Höfðu allgóð tök í heild. Áhorfendur: Um 600.
Þannig vörðu þeir: Hafþór Einarsson, Þór, 15 (8); 6 (1) langskot, 4 (3) eftir gegnumbrot, 2 (1) úr hraðaupphlaupi, 1 (1) úr horni, 2 (2) af línu. Roland Eradze, Val, 15/1 (5); 7 (2) langskot, 1 úr hraðaupphlaupi, 4 (2) úr horni, 2 (1) af línu, 1 víti. |