Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Jovan var með stórleik í markinu í kvöld10. apríl 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarRándýrt stig gegn Haukum í Hafnarfirðinum Það er óhætt að segja að það hafi verið rafmagnað andrúmsloft í Schenkerhöllinni í Hafnarfirði í kvöld þegar Akureyri sótti Haukana heim. Bæði lið spiluðu sterkan varnarleik í upphafi auk þess sem Jovan Kukobat fór á kostum í Akureyrarmarkinu. Það liðu rúmlega átta mínútur þar til Kristján Orri Jóhannsson braut ísinn og kom Akureyri yfir með fyrsta marki leiksins. Sóknarleikur Akureyrarliðsins fór af stað í kjölfarið og eftir fimmtán mínútna leik var staðan 2-5 Akureyri í vil. Vörnin áfram sterk og Jovan traustur í markinu, kominn með sex varin skot á þessum tímapunkti. En Haukarnir náðu að jafna í 6-6 og í framhaldinu var jafnræði með liðunum en Haukar skoruðu síðasta mark fyrri hálfleiksins og leiddu með einu marki, 11-10 í hálfleik. Bjarni Fritzson fór fyrir sóknarleiknum eins og oft áður og skoraði sex mörk í hálfleiknum, þar af þrjú úr vítaköstum.Bjarni sækir að Haukamarkinu. Mynd: visir.is
Haukar skoruðu einnig fyrsta mark seinni hálfleiks en næstu tvö mörk voru eign Akureyrar og þar með orðið jafnt á ný, 12-12 og skömmu síðar einnig 13-13. Í kjölfarið virtust Haukar vera að taka leikinn í sínar hendur og náðu þriggja marka forskoti á næstu tíu mínútum, 18-15 og 19-16 þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Akureyrarliðið var þó engan vegin hætt, Jovan lokaði markinu og með mögnuðum kafla jafnaði Akureyri leikinn í 20-20. Jón Heiðar Sigurðsson bætti um betur þegar hann prjónaði sig í gegnum Haukavörnina og kom Akureyri yfir, 20-21 og þrjár mínútur eftir af leiknum. Spennan var gríðarleg, Jovan varði vel, meðal annars dauðafæri af línunni. Sóknarleikurinn hikstaði aðeins, boltinn tapaðist tvívegis og sjö sekúndum fyrir leikslok náðu Haukar að jafna leikinn eftir langa sókn. Lokatölur 21-21 og það stig dugði Haukum til að innbyrða deildarmeistaratitilinn. Stigið er ekki síður mikilvægt fyrir Akureyri því þrátt fyrir að ÍR næði að sigra Fram í kvöld er ennþá von fyrir Akureyri að komast úr 7. sætinu á mánudagskvöldið. Til þess þarf að sigra HK hér á heimavelli og á sama tíma þarf FH að sigra ÍR. Það lið sem sigrar í þeim leik endar í úrslitakeppninni ef Fram tapar gegn Val. En aftur að leik kvöldsins, þá var það frábær varnarleikur og markvarsla sem öðru fremur skilaði þessu stigi. Sóknarleikurinn var köflóttur, skyttan Valþór Guðrúnarson var ekki með í kvöld vegna axlarmeiðsla og verður ekki meira með á tímabilinu. Bjarni dró vagninn í fyrri hálfleik en fékk ekki mikið svigrúm í þeim seinni. Aðrir leikmenn tóku sig þá til sem skilaði fínum mörkum úr hornunum og af línu. Sigþór Árni Heimisson og Jón Heiðar Sigurðsson skiluðu svo flottum mörkum á lokakaflanum.Andri Snær og Gunnar Þórsson fastir fyrir í vörninni. Mynd: visir.is
Kristján Orri og Halldór Logi gefa ekki færi á sér. Mynd: visir.is
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 8 (4 úr vítum), Kristján Orri Jóhannsson 4, Þrándur Gíslason 4, Andri Snær Stefánsson 2, Halldór Logi Árnason, Jón Heiðar Sigurðsson og Sigþór Árni Heimisson 1 mark hver. Jovan Kukobat stóð í markinu allan tímann, átti sennilega einn sinn besta leik með félaginu og varði 18 skot.Mörk Hauka: Elías Már Halldórsson 4, Tjörvi Þorgeirsson 4, Þórður Rafn Guðmundsson 3, Árni Steinn Steinþórsson 3, Sigurbergur Sveinsson 3 (2 úr vítum), Brynjólfur Snær Brynjólfsson, Einar Pétur Pétursson, Jón Þorbjörn Jóhannsson og Þröstur Þráinsson 1 mark hver. Markverðir Hauka þeir Giedrius Morkunas og Einar Ólafur Vilmundarson áttu ekki góðan dag og vörðu 2 skot hvor. Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook