Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Sverre glaður með margt í leiknum3. október 2014 - Akureyri handboltafélag skrifarHvað sögðu menn eftir leik Akureyrar og Vals? Eftir æsilegan leik í gærkvöldi voru þjálfarar og leikmenn að venju teknir í viðtöl við fjölmiðla. Við reynum að draga þau saman eins og vant er og erum komin með viðtöl af visir.is, mbl.is og sport.is sem fylgja hér að neðan. Byrjum á viðtölum Birgis H. Stefánssonar við Heimi Örn Árnason, Geir Guðmundsson leikmann Vals og Jón Kristjánsson þjálfara Vals: Heimir: Alveg hræðilegt frákast „Valsarar voru að spila mjög vel,“ sagði Heimir Örn Árnason nokkuð þungur á brún eftir leik. „Við vorum alltaf að narta í hælana og svo var þetta allt að koma en þá tókum við alveg hræðilegt frákast þegar við vorum komnir loksins yfir og þeir skoruðu agalega mikilvægt mark. Ég held að ef við hefðum getað klárað þetta ef við hefðum náð þeim bolta, það er stutt á milli og þess vegna er þetta ennþá meira svekkjandi.“ Það kom kafli frá 20. mínútu fyrri hálfleiks og fram að 14. mínútu seinni hálfleiks þar sem markmenn ykkar náðu ekki að verja eitt skot. „Hann átti ekki góðan leik í dag. Hann tók nokkra bolta og það var ekkert að því en það voru nokkur skot þar sem hann virkaði aðeins yfirspenntur kallinn. Hann er búinn að eiga frábær leiki hingað til en við getum ekki búist við tuttugu boltum í hverjum leik.“Heimir fylgist með sínum mönnum
Geir Guðmundsson: Þýðir ekkert að toppa of snemma „Þetta var mjög erfið fæðing,“ sagði Geir Guðmundsson strax eftir leik. „Þetta var bara hrikalega erfiður leikur. Mér fannst við vera með smá forskot en þeir voru alltaf strax komnir aftur, erfiður leikur að spila og stemming í húsinu.“ Það eru komnir núna tveir sigrar í röð hjá Valsmönnum sem hafa þó þurft að hafa mikið fyrir þeim. „Já, svona er þetta bara. Þetta er jöfn og erfið deild, öll lið eru góð. Það eru einnig ákveðnar breytingar hjá okkur sem eru að „kicka-inn“ núna. Við erum að læra nýja hluti sem eru að smella saman, þetta er ekki eins og hjá Óla og við erum að aðlagast. Mikill og góður stígandi í þessu, þýðir ekkert að toppa í byrjun.“ Þetta er nokkuð vegleg matarkarfa sem þú fékkst fyrir að vera maður leiksins, hún kemur sér væntanlega vel? „Þetta kemur sér alveg ofboðslega vel og mikill fengur fyrir piparsveinaíbúðina - ég þarf ekki að fara í Bónus á morgun.“Geir með körfuna frá Norðlenska fyrir að vera besti leikmaður Valsliðsins
Jón Kristjánsson: Eigum enn nokkuð í land „Mér fannst við vera með leikinn að mestu,“ sagði Jón Ríkharð Kristjánsson strax eftir leik. „Við missum svo tvo menn útaf og þeir ná að taka smá sprett en við náðum sem betur fer að klára þetta undir lokin. Í svona 45 til 50 mínútur þá vorum við með nokkuð góða stjórn og hefðum ekki átt að missa þetta svona niður. Þessi leikur var að mörgu leiti öðruvísi en hinir þrír sem við höfum spilað, þar hefur vörnin og markvarsla verið traust á meðan sóknin hefur hikstað aðeins. Þetta var í raun öfugt í raun en við eigum svolítið í land með að slípa saman liðið og það er verkefnið framundan.“ Þið hafið ekki haft mikinn tíma til að koma með ykkar áherslur? „Nei, þetta voru þrjár æfingar fyrir fyrsta leik. Við erum að koma því inn sem við viljum gera og ég vona að það skili sér hægt og rólega.“Gísli dómari leiksins þarf aðeins að ræða við Jón Kristsjánsson og Óskar Bjarna þjálfara Valsliðsins
Þá er komið að viðtölum Einars Sigtryggssonar blaðamanns Morgunblaðsins en hann ræddi við Sverre Jakobsson og Guðmund Hólmar Helgason, leikmann Vals.Sverre: Ótrúlega glaður og þakklátur Valsmenn voru yfir í leiknum lengstum en með góðum kafla náðu heimamenn í Akureyri að komast yfir þegar skammt var eftir. Ekki dugði það því Valsmenn unnu 30:27 þegar liðin mættust í Pepsi-deild karla í handbolta í kvöld. Sverre hafði þetta að segja um leikinn og framhaldið í deildinni. „Það fór mikil orka í það hjá okkur að ná þeim og því miður náðum við ekki að fylgja því eftir að komast marki yfir. Við fengum alveg færin til að skora fleiri mörk en nýttum þau ekki á meðan Valsmenn nýtti sín. Heilt yfir þá vorum við bara ekki nógu góðir. Við börðumst þó allan leikinn og gáfumst aldrei upp þrátt fyrir að vera undir. Það voru lítil atriði og augnablik sem réðu úrslitunum, ögn af einbeitingarleysi og smá óheppni með. Það var samt margt jákvætt, fleiri menn að sýna sig og vörnin var flott á löngum köflum. Ég er ótrúlega glaður og þakklátur að finna hvað fólk hefur mikla trú á okkur og er að mæta vel á leikina til að styðja liðið. Auðvitað vill það sjá okkur sigra en leikirnir hafa verið skemmtilegir og spennandi svo ég vona að fólkið haldi áfram að koma til að styðja okkur. Það er stutt í næsta leik og þar ætlum við okkur tvo punkta, ekki spurning“ sagði hinn tröllvaxni Sverre glaðbeittur að vanda.Sverre og Heimir fara yfir málin í leikhléi
Guðmundur: Ætla að stela pylsum frá Geira Guðmundur Hólmar Helgason var að öðrum ólöstuðum besti leikmaður Vals þegar lið hans bar sigurorð af Akureyringum í Olís-deild karla í handknattleik á Akureyri í kvöld, 30:27. Hann tók af skarið þegar á þurfti að halda og leiddi sína menn jafnt í vörn sem sókn. Frændi hans, Geir Guðmundsson, átti einnig góðan leik. Þeir félagar eru frændur og léku saman með Akureyringum áður en haldið var suður til að spila með Val. Guðmundur hafði frá mörgu að segja að leik loknum. „Ég ætla að vona að þetta hafi verið ágætis skemmtun. Ég er ekkert fúll þótt litli frændi minn (Geir Guðmundsson) hafi verið valinn bestur hjá okkur og unnið gjafakörfuna frá Norðlenska. Hann var mjög góður í leiknum. Ég ætla samt að stela pylsum frá honum. Við náðum ágætis forskoti tvisvar í leiknum en þeir komu óðara til baka. Þetta var svakalega spennandi í restina og sem betur fer komumst við aftur fram úr og Bubbi lokaði á þá í blálokin. Jú, það fór örlítið um mig þegar þeir komust yfir og áhorfendur voru komnir í stuð. Þetta var því enn mikilvægara og sætara. Maður er náttúrulega í þessu fyrir svona augnablik og mér fannst frábært að koma á gamla heimavöllinn og spila við þessar aðstæður. Þetta er samt alltaf jafn skrýtið, að vera andstæðingurinn. Mér finnst alltaf æðislegt að koma hingað i ferska fjallaloftið og er að reyna að segja strákunum í liðinu að það sé himnaríki á jörð að búa hérna fyrir norðan. Þeir eru ekki að kaupa það. Nú förum við bara í mat til mömmu hans Geira, mömmur okkar hafa skiptst á að elda fyrir liðið þegar við spilum hérna fyrir norðan. Maður fær því alltaf háspennuleik og frábæran mat í þessum ferðum“ sagði Guðmundur Hólmar og heyra mátti að hann hlakkaði til máltíðarinnar.Guðmundur óvenju grimmur á svip þó hann brosti í leikslok
Á sport.is eru vídeóviðtöl Siguróla Magna Sigurðssonar við þá Heimi Örn og Guðmund Hólmar Helgason. Guðmundur Hólmar að sjálfsögðu alsæll að vera kominn á heimaslóðir og ekki spillti fyrir að framundan var stórveisla hjá mæðrum þeirra frændanna.Heimir Örn: Maður er hundsvekktur Guðmundur Hólmar: Tilfinningin er sæt Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook