Fréttir
Þú flettir milli frétta með örvalyklunum eða smellir á bláu örvarnar!
Fram liðið er óútreiknanlegt30. september 2015 - Akureyri handboltafélag skrifarGríðarlega mikilvægur leikur á fimmtudaginn Það er óhætt að segja að það sé mikið undir á fimmtudagskvöldið þegar Fram kemur í heimsókn. Akureyri lék vægast sagt köflóttan útileik á laugardaginn gegn FH, fyrri hálfleikurinn var afleitur en liðið sýndi síðan frábæran leik í seinni hálfleik og vann upp sjö mörk af átta marka forskoti FH-inga og var grátlega nálægt því að ná sér í stig, niðurstaðan eins marks tap 28-27. Strákarnir eru staðráðnir í að byggja á því sem þeir sýndu í seinni hálfleiknum gegn FH og með dyggum stuðningi áhorfenda má búast við að allt geti gerst.
Fram liðið er með fjögur stig eftir sigra á Víkingum og Vestmannaeyingum, þeir hafa hins vegar tapað fyrir FH, Val og nú síðast gegn Haukum. Liðin mættust þrisvar á síðustu leiktíð, tvisvar á útivelli og einu sinni hér heima og sigraði Akureyri í öllum þremur leikjunum. Þjálfari Fram er líkt og í fyrra góðkunningi okkar, Guðlaugur Arnarsson og í leikmannahópi þeirra er sem fyrr hornamaðurinn Ólafur Jóhann Magnússon sem varð Íslandsmeistari með 2. flokki Akureyrar vorið 2012.Guðlaugur stýrir sínum mönnum, Ólafur Jóhann og Kristófer markvörður í baksýn
Markaskorun Fram það sem af er tímabilsins hefur dreifst býsna mikið, Óðinn Þór Ríkharðsson, Ólafur Ægir Ólafsson eru markahæstir með 17 mörk, Sigurður Örn Þorsteinsson með 16, Þorgrímur Smári Ólafsson með 15 mörk og aðrir minna. Aðalmarkvörður Fram undanfarin tvö ár er Kristófer Fannar Guðmundsson sem hefur svo sannarlega reynst Frömmurum dýrmætur. Framliðið er afskaplega vel skipulagt og vinnusamt og mun örugglega mæta til leiks af fullum krafti, svekktir eftir erfitt tap gegn Haukum í síðasta leik. Akureyrarliðið ætlar örugglega að sanna fyrir stuðningsmönnum sínum að það er með í deildinni af fullri alvöru þannig að það má örugglega reikna með alvöru leik í KA heimilinu en flautað verður til leiks klukkan 19:00 á fimmtudaginn.
Fletta milli frétta Til baka Senda á Facebook